Skólabúðirnar 30 ára

Á þessu hausti eru 30 ár frá stofnun Skólabúðanna í Reykjaskóla, en það var haustið 1988 sem fyrstu skólarnir komu í Skólabúðir að Reykjum. Það var fyrir tilstilli Bjarna Aðalsteinssonar skólastjóra í Reykjaskóla og Sigurðar Helgasonar starfsmanns í Menntamálaráðuneytinu að kanna möguleika á því að setja á stofn skólabúðir í Reykjaskóla þegar Héraðsskólinn var lagður af. Fóru þeir til Noregs og kynntu sér skólabúðastarf þar og komu heim með hugmyndina. Skólabúðirnar hafa vaxið og dafnað með árunum og er hvert ár fullbókað og eftirspurn eftir plássi meiri en unt er að verða við.

Á þessu afmælisári munu koma u.þ.b. 3.400 nemendur í skólabúðirnar en því miður komast ekki allir að sem vilja. Það er von okkar sem stöndum að rekstri Skólabúðanna að framtíð þeirra verði björt og áfram verði eftirsóknarvert að koma hingað og njóta þess sem hér er boðið uppá í leik og starfi. Einkunnarorð okkar eru „vinátta, virðing og væntumþykja“ og er lögð rík áhersla á að nemendur og starfsfólk sýni hvort öðru það í allri sinni framgöngu.